Dagbókarfærsla Rögnu um líf hennar með Oddi. Tekið af heimasíðu Rögnu ragna.betra.is
Ég var að verða 16 ára þegar ég fór fyrst í Tígulklúbbinn sem var skemmtiklúbbur fyrir unglinga á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Pabbi sá um þessa klúbbastarfsemi á vegum Æskulýðsráðs og hann hvatti mig til þess að koma með sér þetta tiltekna fimmtudagskvöld. Hann hafði áður talað um að ég kæmi með sér, en ég var svo feimin og svo hrædd um að einhver myndi fara að bjóða mér upp í dansinn svo ég hafði alltaf hummað það fram af mér að fara með honum. Núna ákvað ég hinsvegar að slá til og fara ef ég fengi einhverja vinkonu með mér. Ég fékk svo skólasystur mína til þess að koma með.
Þegar við komum í salinn í risinu á Stórholti 1, þar sem skemmtunin var haldin þá fundum við okkur sæti úti í horni þar sem lítið færi fyrir okkur, enda var vinkonan ekkert minna feimin en ég. Þarna úr horninu þóttumst við geta fylgst með þeim sem voru að dansa en verið sem mest ósýnilegar sjálfar. Til að byrja með sátum við bara tvær við borðið og skemmtum okkur við að horfa yfir salinn.
Allt í einu, eftir að allir virtust komnir, þá sáum við tvo unga herramenn koma inn í salinn. Þeir litu aðeins í kringum sig, höfðu svo einhver orðaskipti sín á milli og komu síðan rakleitt að borðinu hjá okkur og spurðu hvort þeir mættu setjast. Það kom eitthvert hik á okkur og við litum hvor á aðra, en þetta voru mjög kurteisir strákar og við höfðum enga ástæðu til þess að neita þeim um að sitja við borðið og sögðum því að að það væri í lagi.
Þetta voru miklir herramenn og þeir kynntu sig fyrir okkur. Oddur Vilberg Pétursson heiti ég og þetta er vinur minn hann Jón Birgir Jónsson, kallaður Jombi. Mér leist strax svo vel á þann sem kynnti þá, en svo varð ég alveg máttlaus í hnjánum nokkru seinna þegar hann bauð mér að koma og dansa við sig. Nú var sem sé martröðin orðin að veruleika – mér hafði nú verið boðið upp í dans. Ég stundi því upp að ég kynni ekkert að dansa, en þessi glaðlegi drengur hlustaði ekki á það og sagði að það gerði nú ekkert til svo á endanum fór ég með honum út á gólfið. Það sem hjartað hamaðist í brjósti mér og ég hafði á tilfinningunni að ég hefði roðnað svo mikið að allir myndu sjá hvað ég væri rauð, feimin og hallærisleg. Sjálfsmyndin var nú ekki sterkari en þetta. Þetta var nú ekkert rómantískur dans „Let’s twist again“ en ég reyndi að dilla mér einhvernveginn eftir þessu lagi og síðan kom rólegt lag á eftir þar sem herrann hélt utanum dömuna og það orsakaði undarlegt kitl í magann og síðan urðu dansarnir fleiri og fleiri og þegar skemmtuninni lauk var tekið loforð af feimnu stúlkunni um að koma aftur næsta fimmtudagskvöld – eða, mætti kannski hringja til hennar?
Næsta dag hrökk ég við í hvert skipti sem síminn hringdi, en það var ekki fyrr en síðdegis þar næsta dag, þegar ég hafði gefið upp alla von um að fá þráðu símhringinguna, að mamma fór í símann og sagði að það væri til mín – einhver strákur. Hjartað tók aukaslag og ég varð kafrjóð og máttlaus í hnjánum. Það var hann, STRÁKURINN og hann var að bjóða mér, af öllum stelpum – í bíó næstu helgi. Ég sveif um í hamingju. Næstu dagar einkenndust af eirðarleysi og síminn var vaktaður. Ég fann að ég var orðin rosalega skotin og hrökk við í hvert sinn sem síminn hringdi. Það var nefnilega ekki sími heima hjá honum svo hann varð alltaf að hafa frumkvæðið að því að hringja og þurfti að fara út í sjoppu til þess að fá að hringja þar.