Dagbókarfærsla Rögnu um líf hennar með Oddi. Skrifað 4. maí 2013. Tekið af heimasíðu Rögnu ragna.betra.is
Í dag 4. maí minnumst við mæðgurnar Odds heitins með hlýju og virðingu. Við minnumst allra ljúfu og skemmtilegu stundanna okkar og ég minnist æskuástarinnar minnar og öllu sem henni fylgdi. Það er sorglegt hve mikið var á hann lagt og hversu stutt hann átti góða ævi, því hann fékk fyrstu heilablóðföllin sem sköðuðu hann mikið, á árunum 1980 – 1983 og þannig lifði hann til ársins 1995.
Þessa fjölskyldumynd létum við taka þegar Oddur virtist hafa
náð heilsu eftir fyrsta heilablóðfallið og aðgerðina samhliða því.
Tveimur árum eftir þetta fór hinsvegar allt á versta veg eftir seinna áfallið.
Já, það er ömurlegt þegar svona vel menntaðir og myndarlegir menn eins og hann var, þurfa að ganga í gegnum 15 ár með breyttan persónuleika, breytt líf og þurfa að láta annast sig og gæta, nánast eins og ungbarns. Það er mikil sorg að sjá einstakling breytast þannig frá því að vera heimilisfaðir sem elskaði að vera með fjölskyldu sinni, átti sjö ára dóttur og aðra á fyrsta ári, var mikill húmoristi, vel metinn löggiltur endurskoðandi, alæta á lesefni, hafði gaman af íþróttum og allt lífið blasti við. Eftir áföllin gat hann ekk lengur lesið bækur því hann missti strax einbeitinguna og fór þá að fletta fram og aftur í bókunum. Samt sem áður var bókin aldrei langt undan hjá honum og hann naut þess að fletta svona í þeim. Ekki gat hann tjáð sig með því að skrifa og oftast gat hann ekki svarað þegar talað var við hann, en hann gat samt stundum sagt eitthvað smávegis, sem við gátum áttað okkur á. Þó skynjuðum við að hann var oft ágætlega með á nótunum, nema þegar hann fékk flogaköstin sem lýstu sér sem stjarfi, þá sat hann bara og ekkert náði til hans, en annars hafði hann gaman af að horfa á sjónvarpið og hló á réttum stöðum í fyndnum bíómyndum. Sérstaklega hafði hann yndi af breskum skemmtiþáttum, eins og við höfðum alltaf haft og ég vissi upp á hár að hann skildi það sem fram fór. Hann hafði líka svo gaman af að fylgjast með því sem dæturnar voru að gera og þegar þær voru að sýna honum eitthvað úr skólanum eða sem þær hefðu búið til. Það sem hann vantaði, var að koma öllu því sem bærðist í skaddaða heilabúinu til skila – alveg skelfilegt að vera svona fjötraður að geta ekki á neinn hátt komið frá sér því sem hugurinn vildi. Það bjargaði hvað við vorum búin að vera lengi saman, alveg síðan við vorum bara unglingar, svo ég skildi hann þó hann gæti ekki sagt hvað hann væri að hugsa.
Hann þurfti manninn með sér og mikla umönnun, þess vegna var hann lengstum á Reykjalundi og síðan á Hlein, en um helgar, á hátíðum og í fríum var hann öll fyrstu árin alltaf heima. Það svona gekk, þó ég skilji ekki í dag hvernig það gat gengið. Stundum kom það fyrir að ég var kannski eitthvað að gera í stutta stund í eldhúsinu eða niðri í þvottahúsi þegar hann var heima, en hann sat inni í stofu. Þegar ég ætlaði síðan að kíkja á hann aftur eftir örstutta stund, var hann horfinn. Þá hafði honum allt í einu dottið í hug að fara einn út og enginn varð var við það. Eitt sinn þurfti ég að leita lengi að honum og gat ekki skilið hvert hann hefði farið, en þegar ég var um það bil að fara heim og hringja til lögreglunnar og biðja um hjálp, fann ég hann loksins sitjandi á bekk niðri í Laugardal. Þar sem hann var svo mikill prakkari í sér og hafði ekki tapað þeim eiginleika sínum, þá brosti hann bara kankvís þegar ég kom að honum eins og ekkert væri eðlilegra en að hann sæti þarna í góða veðrinu og hann gerði sér enga grein fyrir því hvað hann var búinn að vera lengi í burtu eða hvað ég var, eins og alltaf þegar hann laumaðist svona út án þess að láta mig vita, hrædd um að hann fengi kannski nýtt áfall og enginn vissi hver hann væri eða héldi kannski að hann væri drukkinn, en ekki veikur.
Eitt var hann alltaf með á hreinu, það var hvenær væri kominn föstudagur og hann ætti að koma heim, því hann minnti á það með því að hringja í mig í vinnuna. Ég vissi að það væri hann því fyrst heyrðust bara umhverfishljóð og síðan „sækja mig“ svo kom ekkert meira. Hann hafði fótavist þó hann væri ekki eðlilegur í göngulagi og hreyfingum en hann hafði mjög sjálfstæðan vilja og fór bara beint í að framkvæma það sem honum datt í hug þó það væri ekki alltaf það rétta. Oft kom það fyrir á Reykjalundi að hann stakk af fótgangandi til þess að fara heim – stundum kom hann sér í rútuna sem stoppaði þar á planinu og fór svo úr við Grensás. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þegar hann birtist allt í einu heima um kvöld, í vetrarkuldanum sem þá var og hann var mjög illa til reika eftir að ganga í myrkrinu frá Grensásstöðinni þar sem hann hafði farið úr rútunni. Hugur hans var bara alveg stöðugt hjá okkur heima. Stelpurnar voru svo þolinmóðar og góðar við pabba sinn og þótti jafn vænt um hann og þegar hann var eðlilegur. Sigurrós mín kynntist því reyndar aldrei að eiga frískan og eðlilegan pabba því hún var bara átta mánaða þegar hann veiktist fyrst og þriggja ára þegar hann varð svona mikið skaddaður. En vissulega var erfitt að horfa upp á það þegar hann var að matast sjálfur, því það vantaði alla stjórn á þá framkvæmd og ekkert í heilanum hans sem sagði að nú væri búið að setja matinn í munninn og þá ætti að tyggja hann en ekki bæta meiru við fyrr en það væri búið. Það er erfitt fyrir börn að sjá foreldri sitt verða svona hjálparvana.
Alltaf var hann góður við okkur. Alltaf brosmildur og glaður þegar hann sá okkur, bæði þegar við heimsóttum hann á Reykjalund og sérstaklega þegar ég sótti hann til þess að vera heima um helgar, á hátíðisdögum og hluta af sumarleyfi mínu frá vinnu, því þá gat hann verið með okkur mæðgunum heima þar sem hann þráði að vera. Hann þurfti hins vegar svo mikla umönnun og þjónustu að það hefði ekki verið hægt að skilja hann eftir einan á meðn ég fór til vinnu og eftir að ég fór sjálf í gegnum veikindi var mér bannað að taka hann heim nema að deginum og þá komu fleiri inn í að gera eitthvað fyrir hann þriðju hverja helgi svo þá átti ég frí. – Auðvitað tók þetta á og ég viðurkenni að ég varð oft að bíta á jaxlinn til þess að láta ekki í ljósi hvað ég var stundum pirruð og þreytt. Ég var í mjög krefjandi vinnu á þessum tíma og þurfti oft að fara í aukavinnu á sunnudagskvöldum, beint frá því að keyra hann upp að Reykjalundi eftir að vera heima yfir helgina og í þeim tilfellum þurfti ég að vinna langt fram á nótt við að pikka inn á tölvu langar málflutningsræður og ljósrita gögn sem samin höfðu verið yfir helgina og áttu að notast í réttarhaldi snemma næsta morgun. –
Hér læt ég staðar numið því nú er ég komin svo óralangt út fyrir það sem til stóð að segja. Ekki veit ég af hverju minningarnar hafa ruðst svona fram, því ég ætlaði snemma í rúmið, ætlaði bara aðeins að setjast hérna við tölvuna og setja inn eina eða tvær línur og kannski gamla mynd til þess að minnast afmælis Odds heitins, en svo ruddist þetta bara allt inn á skjáinn. Kannski er allt í lagi að láta svona minningar frá sér – sýnir að maður sé mannlegur. Fyrst og fremst sýnir þetta hvað hann, svona ungur maður og því miður margir fleiri þurfa að bera mikil veikindi og hvað það er hörmulegt að tapa svona miklu og verða fjötraður langt inni í sínum eigin líkama.
Ég held alltaf að ég sé búin að vinna úr þessari reynslu og loka hana niðri í geymslu huga míns, en svo gerist bara eitthvað eins og núna að minningarnar brjótast út.
Núna var ég að opna bókina mína góðu „Kyrrðar spor“ og þá blasti þessi texti við mér – svolítið sérstakt að opna einmitt á þessu:
„Þú munt komast að því að þú öðlast aldrei sálarfrið
fyrr en þú gerir þér ljóst hve dýrmætir og mikilvægir allir eru. „