Það var fyrir margt löngu, á upphafsári kennslu í Langholtsskólanum í Reykjavík. Ég, eins og allir aðrir nemendur, kom úr öðrum skóla. Við þær aðstæður er leitað félaga og þróaðist svo, að myndaðist þriggja manna klíka. Það var ég undirritaður, Kristinn og svo Oddur. Við Kristinn þekktumst úr Vogunum, en Odd þekktum við ekki, því hann var úr Kleppsholtinu. Það breyttist fljótt og hélt þessi hópur saman veruna í Langholtsskólanum og hefur nú sú vinátta enst í yfir 40 ár. Ýmislegt var gert, en ekki var þó verið mikið í líkamlegum íþróttum en meiri áhersla lögð á þær andlegu. Fyrst skák, en um fermingu tók brids við. Fyrst vorum við þrír og fengum þá oftast eitthvert foreldra okkar sem fjórða mann og var þá kennsla innifalin. Seinna bættist við fjórði maður, svo sá fimmti og sá sjötti. Þessi klúbbur starfar enn, kannski ekki svo fullkomin spilamennska, en góður vettvangur fyrir mannleg samskipti. Hann hefur eiginlega breyst í fjölskylduhóp. Frá upphafi hefur verið lagt í sjóð fyrir hvert spilakvöld. Fyrsti sjóður klúbbsins nægði fyrir smurðu brauði í Glaumbæ. Seinna hresstist sjóðurinn og tóku þá við helgarferðir til að njóta menningu heimsborga. Fyrsta stóra ferðin var farin 1981 og var Oddi þá, sem menntuðum einvaldi, falið að skipuleggja þá ferð. Ferðin var frábær eins og Odds var von og vísa.
Strax á unga aldri kom fram nákvæmni og samviskusemi í verkum Odds. Hópurinn hafði um tíma þá venju, að fara í sund á sunnu-dagsmorgnum. Oddur bar út Moggann og var það hlutverk okkar að flýta fyrir. En einn sunnudagsmorgun var einu aukablaði of mikið í lokin. Ekki kom annað til greina en að fá málið á hreint og ekki hætti hann að yfirheyra okkur hina fyrr en fundist hafði gleymdi áskrifandinn. Þá var hægt að fara í sund.
Við Oddur fórum að líta í kringum okkur á hitt kynið á álíka tíma og vorum heppnir með valið. Hann kynntist henni Rögnu og eyddi með henni lífinu eins lengi og heilsan entist. Þau eignuðust tvær dætur, Guðbjörgu, fædda 1972, og Sigurrós fædda 1979.
Í fyrsta bekk í gagnfræðaskóla ákvað Oddur áframhaldandi skólagöngu og þreytti inntökupróf í Verslunarskóla Íslands, einu ári yngri en vanalegt var. Að sjálfsögðu stóðst hann prófið og lauk því verslunarprófi einu ári yngri en skólasystkinin.
Eftir verslunarpróf hóf Oddur vinnu í Stálsmiðjunni. Ekki gerði hann sig ánægðan með mögulega framamöguleika án frekari menntunar og hóf hann nám í endurskoðun 1969. Það nám var þá að hluta bóklegt nám en að miklum hluta til samningur í endurskoðunarfyrirtæki. Hann stundaði til að byrja með nám sitt hjá Guðjóni Eiríkssyni, en 1972 hóf hann vinnu hjá N.Mancher & Co og vann þar meðan heilsan entist. Til að byrja með sem nemi en fljótlega eftir lokapróf sem meðeigandi.
Fyrir 15 árum fékk Oddur fyrsta áfallið. Það var heilablæðing og seinna kom í ljós, að hún var afleiðing af arfgengum nýrnasjúkdómi. Eftir þessi veikindi virtist allt ætla að jafna sig. En áföllin urðu fleiri og heilsunni hrakaði og síðustu 12 árin hefur hann að mestu verið vistmaður á sjúkrastofnunum, lengst af á Reykjalundi en síðustu tvö árin á Hlein við Reykjalund. Aðstaða þar er til mikillar fyrirmyndar og hefur umönnun hans bæði á Hlein og Reykjalundi verið sérstök. Þetta kom hvað best fram í erfiðum veikindum nú síðasta mánuðinn.
Oddur var dulur maður og flíkaði ekki tilfinningum sínum en umhyggja fyrir fjölskyldunni kom fram í öllu hans lífi. Hann vildi ávallt byggja upp fyrir hana og er óeigingjarnt starf hans í Ássöfnuði dæmi um þá umhyggju. Þó nokkuð sé síðan heilsa Odds hindraði hann í hefðbundinni samvinnu okkar munum við ávallt minnast hans sem trausts og góðs félaga.
Við spilafélagar og konur okkar votta Rögnu og dætrunum og öðrum skyldmennum samúð okkar og óskum þeim alls góðs í ókominni framtíð.
Hreinn Frímannsson.