Dagbókarfærsla Rögnu um líf hennar með Oddi. Tekið af heimasíðu Rögnu ragna.betra.is
Yfirskriftin er „Það er hægt“ – Já það er hægt að halda jól án þess að allt sé sett á annan endann og stressa sig upp úr öllu valdi og það sem meira er, það eru bestu jólin.
Það var skrýtið að eiga að fara að halda jól í öðru landi. Jólaskrautið var allt heima á Íslandi, því við reyndum að taka ekki of mikið með okkur út. Við leigðum lítið raðhús með húsgögnum svo að við höfðum ekkert af okkar dóti í kringum okkur – það yrði því ekkert eins og heima. Auðvitað kom þó ekki annað til greina en að gera jólin okkar sem hátíðlegust.
Við fórum einn laugardaginn í desember á markað niðri í Woking og þar fundum við ódýrt jólaskraut og seríu til þess að setja á jólatré. Svo keyptum við lítið gervitré sem við sáum að kæmist fyrir á litla borðinu í horninu við gluggan. Guðbjörg var alsæl með þetta. Það var mikið að gera hjá henni í leikskólanum því það var verið að æfa jólaleikrit þar sem hún var í hlutverki og tók þessu af mikilli alvöru. Á myndinni hérna fyrir neðan er hún til hægri frá okkur séð og sú sem er vinstra megin við hana er norsk stúlka, en þær eru báðar fjögurra ára þarna. (Myndina má stækka með því að smella á hana)
Við kviðum því að við myndum kveljast af heimþrá á þessum jólum, því við myndum engan hitta og ekkert fara. En þegar nær dró jólum urðum við í vandræðum með að raða niður heimboðunum fyrir jóladaginn og annan í jólum. Aðfangadagurinn þarna úti var eins og Þorláksmessa hérna heima og það kom ekki til greina annað en að vera heima og halda okkar jól á aðfangadagskvöld. Við fórum hinsvegar í jólaboð til enskra vina okkar á jóladag og á annan í jólum.
————————–
Aðfangadagurinn rann upp og við fórum í göngutúr um morguninn því veðrið var svo gott og svo fór ég eftir hádegið að undirbúa fína hamborgarhrygginn sem mér hafði tekist að ná í, steikja rauðkálið og tína til annað sem átti að hafa með steikinni. Hugurinn dvaldi alveg hjá fólkinu heima meðan ég dútlaði við matinn. Guðbjörg litla skreytti jólatréð með pabba, og eitthvað fleira hengdu þau líka upp af skrauti í litlu stofunni okkar.
Við settumst svo þrjú að jólaborðinu i kllukkan sex um kvöldið og kveiktum á kertum. Við vorum í okkar fínasta pússi og Guðbjörg var í kjól sem ég saumaði á hana upp úr kjól af sjálfri mér. Það var voða skrítið að sitja bara þrjú til borðs, engar ömmur, afar eða aðrir sem við vorum vön að vera með á aðfangadagskvöldi og ekki gátum við hlustað á jólin hringd inn með kirkjuklukkunum og hlustað á jólamessuna í útvarpinu eins og við vorum vön. Við vorum ekki með plötuspilara svo við gátum ekki spilað nein jólalög. Í sjónvarpinu var bara venjuleg dagskrá og ekkert hátíðlegt þar að finna svo imbinn var hafður lokaður þetta kvöld. Við hugsuðum bara til fólksins okkar heima og vorum með þeim í huganum.
Eftir matinn og fráganginn þá settumst við þrjú inn í stofu og sungum saman jólasálmana, nokkuð sem við höfðum aldrei gert áður. Síðan tókum við upp pakkana og lásum allar dásamlegu jólakveðjurnar að heiman. Það var yndislegt að fá bækur til að lesa. Svo hringdu foreldrar okkar til að óska okkur gleðilegra jóla og þá þurfti að reyna eftir bestu getu að halda aftur af tárunum. Frá því ég fæddist hafði ýmist ég verið hjá foreldrum mínum eða foreldrarnir hjá okkur á aðfangadagskvöld. Þetta var því í fyrsta skipti sem við héldum jól í sitt hvoru lagi og ég fann eitthvað svo til með þeim að vera bara tvö ein að borða jólamatinn.
Síðan var alveg dásamlegt að skríða upp í rúm um kvöldið í nýjum náttfötum með jólabækur að heiman. það var ekki hægt að óska sér betra aðfangadagskvölds en við áttum þarna í allri fábreytninni, vitandi það að í kringum okkur var enginn að halda jól nema við – það var svolítið sérstakt.
Ég segi nú alveg eins og er, að í minningunni finnst mér þessi látlausu jól okkar þarna á erlendri grundu alltaf svo einstök og við vorum svo mikið í nánd við sjálf jólin og við hvert annað án allrar utanaðkomandi streitu og prjáls.
Það liggur við að ég fái tár í augun þegar ég rifja þetta upp.
Myndirnar hérna fyrir neðan eru teknar þetta aðfangadagskvöld. Það er hægt að stækka þær með því að smella á þær.
Mér finnst gott, í öllu stressinu og auglýsingaflóðinu sem hefur verið að drekkja okkur undanfarið, að fara aftur í tímann og rifja upp hvað jólin í Englandi forðum, sem voru þau allra látlausustu í mínu lífi hingað til, voru yndisleg einmitt í sinni einföldustu mynd.
Reynum að láta stressið ekki fara alveg með okkur þó svo að okkur hafi kannski ekki tekist að hafa allt eins og við hefðum helst kosið. Já, Jólin koma með sinn fallega boðskap hvort sem við höfum lokið því sem við hugðumst gera fyrir Jól eða ekki og við skulum njóta þess friðar sem þau færa okkur. Hugsum til þeirra með þakklæti sem gerðu jólin okkar svo yndisleg en eru ekki lengur á meðal okkar. Hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna sjúkdóma, slysa eða ástvinamissis. Leiðum líka hugann að því að þeir eru svo margir sem ekki hafa það eins gott og við sjálf og margir hafa ekki haft nægilegt fé til matarkaupa eða til þess að gefa sínum nánustu jólagjafir. Þeir eru án efa fleiri en okkur grunar bæði hér og á erlendis sem þannig er ástatt um.