Oddur Vilberg Pétursson Örlög manna eru misjöfn. Sumum auðnast að komast að mestu leyti áfallalaust í gegnum lífið á meðan aðrir verða fyrir þungum áföllum. Oddur Pétursson, mágur og svili okkar, sem við kveðjum í dag, varð fyrir því mikla áfalli að missa heilsuna fyrir 15 árum, þá aðeins rúmlega fertugur. Fram til þess tíma blasti lífið við honum.
Við hjónin höfðum stofnað okkar heimili nokkrum árum áður en Oddur kom inn í fjölskylduna og fylgdumst af áhuga með hvernig hann og Ragna unnu saman við að byggja upp framtíðina. Hann lauk prófi sem löggiltur endurskoðandi og var einn af eigendum virtrar endurskoðunarskrifstofu í Reykjavík. Áhugamál hans voru mörg, hann og Ragna höfðu yndi af ferðalögum og áttu sinn sælureit í sumarbústaðnum við Heiði á Rangárvöllum, í landi afa hans og ömmu. Þar undi Oddur sér vel. Við minnumst heimsókna okkar í bústaðinn til þeirra, veiðiskap í Rangá og gönguferða um landareignina.
Oddur og Ragna eignuðust tvær efnilegar dætur, Guðbjörgu, sem er að ljúka námi frá Kennaraháskóla Íslands og Sigurrós Jónu sem er að ljúka grunnskólaprófi. Þegar Oddur veiktist voru þau nýflutt inn í fallegu íbúðina sína sem þau byggðu ofan á hús tengdaforeldra hans. Yngri dóttirin var þá aðeins hálfsárs gömul. Þau ár sem liðin eru hafa skipst á bjartsýni, vonir og vonbrigði. Oddur dvaldi langdvölum á Reykjalundi en kom heim eins oft og mögulegt var, þar vildi hann helst vera. Ragna stóð ætíð við hlið hans, hún studdi hann og annaðist allan þennan tíma af mikilli þrautseigju og reyndi allt sem hægt var til að hann næði heilsu á ný.
Við kveðjum Odd í dag með þakklæti fyrir margt dýrmætt sem hann gaf okkur. Hans æðruleysi kenndi okkur að þakka fyrir það sem við höfum, því ekkert er sjálfgefið í lífinu.
Elsku Ragna, Guðbjörg, Sigurrós og aðrir aðstandendur, við biðjum ykkur allrar blessunar á þessari kveðjustund.
Edda, Jón Ingi og börn.