Minningargrein – Ingunn, Einar, Loftur og Linda

Oddur Vilberg Pétursson Nú er löngu stríði lokið og eftir sitja þeir mörgu sem börðust með Oddi í hans löngu veikindum. Alltof fljótt var hann tekinn burt úr því fullkomna umhverfi sem hann og Ragna höfðu búið sér og sínum. Þegar hann veiktist 1983 varð líf hans og hans nánustu ekki það sama og í raun vita það fáir hversu illa honum leið oft. Sársaukinn að geta ekki verið með fjölskyldu sinni og ala upp dætur sínar sem honum þótti svo undurvænt um hlýtur að hafa verið óbærilegur. En við því varð ekki gert og þá gat hann þó glaðst yfir því hversu vel þeim gekk í skóla, hversu fallegar og góðar stúlkur hann átti. Og hann átti meira. Hann átti hana Rögnu sína sem aldrei brást. Hann var búinn að eiga hana lengi að, því þau byrjuðu að vera saman kornungir unglingar og voru svo einstaklega samhent í öllu. Hann vissi því alltaf að hann gat treyst á Rögnu, hún var alltaf hans. Það var alltaf sama tilhlökkunin að hitta þær og koma heim.

Allir sem þekktu Odd, tóku eftir því hversu vel Ragna hugsaði um hann. Það gerði hún ekki til þess að aðrir tækju eftir því, bara af því að hún er eins og hún er. Hún er hetja.

Áður en veikindin yfirtóku líf hans, var allt í öruggum skorðum. Alveg frá frumbernsku. Fyrsta barn foreldra sinna, fyrsta barnabarn afa og ömmu, augasteinn þeirra enda bar hann nöfn þeirra beggja. Í sveitinni hjá þeim á Heiði var hann ungur og í raun hætti hann aldrei, því sá staður átti alveg sérstaklega sterk ítök í honum. Það var ekki til sá hlutur sem hann vildi ekki gera fyrir afa og ömmu. Síðar byggðum við fjölskyldan okkur sumarbústað á Heiði og enginn annar staður átti sterkari ítök í Oddi. Þar gróðursettu hann og mamma fjöldann allan af trjám við erfiðar aðstæður og hann var heldur montinn að koma í Sælukot og sjá hversu vel trén döfnuðu.

Við yngri systkinin litum öll mikið upp til hans. Við hefðum öll viljað að okkar einkunnir litu út eins og hans. Við glöddumst með honum hversu vel vinnan farnaðist honum. Það var allt eitthvað svo öruggt í kringum hann, eitthvað sem hefði átt að vera auðvelt að hafa sem fyrirmynd. Hann var líka stóri bróðir, þannig eiga þeir að vera.

Síðustu ár ævi sinnar dvaldi Oddur lengstum á Reykjalundi, nú síðast hafði hann litla íbúð á Hlein. Það er ekki til í orðabók það orð sem getur lýst þakklæti okkar og móður okkar til allra á Reykjalundi. Væntumþykja starfsfólksins alla tíð var einstök. Í lokabaráttu Odds í þessu lífi komu þau svo sem ekki á óvart með einstökum vinarbragði. Það gleymist ekki.

Hann átti ótal marga vini, hann átti bara vini. Á ýmsum stigum í lífi sínu kynntist hann mörgum. Þegar við hittum þetta fólk sannfærumst við enn betur um að þar fór drengur góður.

Við þökkum öllu þessu fólki fyrir það sem það var honum og við þökkum honum það sem hann var okkur.

Guð blessi minningu stóra bróður.

Systkini.