Æviágrip

Oddur Vilberg Pétursson fæddist í Reykjavík 4. maí 1944 og lést á Reykjalundi 15. mars 1995. Foreldrar hans voru Pétur Einarsson (f. 1910), verkamaður, og Guðbjörg Oddsdóttir (f. 1921), húsmóðir og saumakona.

Oddur var stóri bróðir fjögurra yngri systkina Þau eru Ingunn (f. 1947), Einar (f. 1949), Loftur Þór, (f. 1956) og Linda Björg (f. 1961).

Oddur stundaði barnaskólanám í Langholtsskóla og fór síðan í Verzlunarskólann en þaðan lauk hann verslunarprófi. Hann vann sem bókari á skrifstofu Stálsmiðjunnar frá 1961 til 1969 en þá hóf hann nám í endurskoðun hjá Guðjóni Eyjólfssyni löggiltum endurskoðanda og síðan hjá Endurskoðunarskrifstofu N. Manscher & Co. Hann hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 1975. Síðar varð hann meðeigandi að því sama endurskoðunarfyrirtæki sem þá hafði hlotið nafnið Endurskoðunarmiðstöðin hf. og seinna Endurskoðunarmiðstöðin Coopers & Lybrandt. Þar starfaði hann til 1983 þegar hann varð að láta af störfum eftir ítrekaðan heilsubrest.

Þann 25. júlí 1964 kvæntist Oddur unnustu sinni, Rögnu Kristínu Jónsdóttur (f. 1945) og bjuggu þau lengst af í Reykjavík. Þau bjuggu þó í tæp tvör ár í Englandi þegar Oddur starfaði hjá Coopers & Lybrand í London. Eftir heimkomuna þaðan byggðu þau við æskuheimili Rögnu á Kambsveginum og þar var heimili fjölskyldunnar á meðan Oddur lifði.

Oddur og Ragna eignuðust tvær dætur, þær Guðbjörgu (f. 1972) og Sigurrós Jónu (f. 1979). Þær starfa báðar sem kennarar.

Guðbjörg er gift Magnúsi Má (f. 1964) og saman eiga þau einn son, Ragnar Fannberg (f. 2006). Guðbjörg á einnig tvö börn með fyrri eiginmanni sínum, þau Karlottu (f. 1997) og Odd Vilberg (f. 1999)

Sigurrós Jóna er gift Jóhannesi Birgi (f. 1975) og saman eiga þau tvær dætur, þær Rögnu Björk (f. 2007) og Freyju Sigrúnu (f. 2010).

Síðustu árin sem Oddur lifði bjó hann á sambýlinu Hlein sem er hluti af stofnun Reykjalundar, en Reykjalundur var bjargvættur hans og fjölskyldunnar í veikindum hans.