Minningar Sigurrósar

Skrifað í maí 2014:

Mér þótti ósköp vænt um pabba minn. Hann bjó ekki hjá okkur og hann var öðruvísi en pabbar vinkvenna minna en við áttum gott og hlýtt samband. Hann kom til okkar um helgar auk þess sem við heimsóttum hann reglulega.

Ég man mjög vel eftir ferðunum á Reykjalund. Á leiðinni þangað beið ég alltaf spennt eftir að við færum framhjá húsinu með steinlistaverkunum og ég dundaði mér einnig við að fylgja hitaveitustokknum eftir með augunum, en hann var ýmist sýnilegur eða lá undir grasbrekkuna. Meðan á heimsókninni sjálfri stóð fékk ég oft að skreppa niður í sjoppuna og kaupa smá nammi. Þó það væri ekki endilega auðvelt að sjá það á honum og þó hann ætti oft í erfiðleikum með að kalla fram orðin til að minnast á það, þá var pabbi alltaf ánægður að koma heim. Mér fannst líka gaman að fá hann heim. Laugardagar í minningunni kalla fram hjá mér ljúffengan steikarilm úr eldhúsinu og óm af enska boltanum sem pabbi fylgdist með í sjónvarpinu.

Ég man eftir göngutúr sem við fjölskyldan fórum í að vetri til. Það var snjór úti og pabbi dró mig á fína rauða sleðanum mínum.

Þó það hljómi kannski undarlega þá þykir mér líka vænt um minninguna um sumarbústaðarferðina þegar ég, lítil skotta, tíndi sóleyjar í blómvönd og gaf pabba. Mikið óskaplega varð ég hissa þegar pabbi borðaði blómin sem ég gaf honum, enda hafði ég á þessum tíma ekki mikla þekkingu á boðleiðunum í höfðinu á honum sem höfðu ruglast við heilablóðföllin.

Mamma sá ávallt til þess að pabbi væri snyrtilegur og fínn. Einu sinni, þegar ég hef líklega verið í kringum 11-12 ára var mamma að undirbúa að raka hann í framan með rafmagnsrakvélinni. Ekki man ég hvort ég bað um það eða hvort mamma bauð mér það að fyrra bragði, en ég fékk að taka að mér verkefnið, að minnsta kosti að einhverju leyti. Ég man eftir að renna rafmagnsrakvélinni yfir broddana á vöngum hans og vandaði mig óskaplega við verkið. Pabbi sat kyrr á meðan og beið meðan ég dundaði við þetta. Mér fannst ég ákaflega dugleg og stór að fá að spreyta mig á þessu fullorðinsverkefni.

Aðfangadagsmorgnar eru hjúpaðir ljúfum ljóma. Meðan mamma hamaðist við að gera allt klárt fyrir kvöldið, þá sátum við pabbi saman í sófanum og horfðum á teiknimyndir meðan við biðum eftir jólunum. Ég hefði örugglega getað hjálpað mun meira til við jólaundirbúninginn en það var ósköp kósí að hafa pabba þarna hjá mér sem hafði alltaf tíma til að slæpast með mér yfir teiknimyndunum.

Þegar ég var í 10. bekk var ég í bjöllukór Laugarneskirkju. Þegar við byrjuðum að æfa jólalögin þá fann ég að mig langaði gríðarlega að fá bjöllukórinn með mér á Reykjalund og við myndum spila fyrir pabba og hitt heimilisfólkið. Stelpurnar í bjöllukórnum og stjórnandi kórsins voru alveg til í það. Við fengum aðstoð við að flytja bjöllurnar fram og tilbaka og ég gleymi því ekki hvað ég var stolt og ánægð að fá þetta tækifæri til að spila fallegu jólalögin fyrir pabba.

Á aðfangadagskvöld spilaði bjöllukórinn við jólamessuna kl. 18. Ég fékk að fara fyrr heim úr messunni en hinar stelpurnar, til að ná jólamatnum með mömmu, pabba og ömmu sem biðu heima. Ég man eftir að standa á kirkjutröppunum og bíða þess að mamma kæmi að sækja mig. Allt var svo kyrrt og hljótt, svo fallegt og ég horfði á hvernig snjónum kyngdi niður. Allt varð hvítt en þó baðað rauðbleikri birtu frá ljósastaurum og jólaljósum allt um kring. Þetta voru síðustu jólin hans pabba en hann lést þremur mánuðum síðar.

Mínar æskuminningar eru almennt góðar. Minningar sem virka ef til vill ekki stórar eða merkilegar en eru mér svo óendanlega dýrmætar. Ég bjó með mömmu minni og systur, amma bjó á hæðinni fyrir neðan og pabbi minn bjó á Reykjalundi. Svona var veruleikinn og ég var hamingjusamur krakki sem sá enga ástæðu til að telja að lífið ætti að vera öðruvísi. Það á ég að þakka henni mömmu sem var kletturinn okkar og sá til þess að öllum liði vel og að lífið væri okkur gott þó það hefði villst harkalega út af þeirri braut sem það var upphaflega á. Ég verð henni ævinlega þakklát.

Í seinni tíð verð ég stundum leið þegar ég hugsa til þess að hafa farið á mis við þann frábæra mann sem pabbi var. Stundum fylgir þessari eftirsjá afbrýðisemi. Þó ég njóti þess að drekka í mig sögur af pabba og skoða myndir frá gamla tímanum þá getur verið sárt að tala um hann við fólk sem þekkti hann áður en veikindin skullu á. Vera minnt á það að ég, dóttir hans, fæ eingöngu tækifæri til að kynnast honum í gegnum sögur.

En ég er þó samt afar þakklát fyrir allar sögurnar og ég verð alltaf svo glöð í hjartanu þegar ég heyri fólk tala um pabba minn, tala um hvað hann var fallegur og góður maður, hvað hann var klár og duglegur og hversu skemmtilegur hann var. Þá verð ég svo stolt að þessi magnaði maður hafi einmitt verið pabbi minn.