Ástarsaga – annar hluti

Dagbókarfærsla Rögnu um líf hennar með Oddi. Tekið af heimasíðu Rögnu ragna.betra.is

Það hafði allt í einu orðið algjör umbylting á lífi mínu og nú hringsnerust alls konar vangaveltur í höfðinu á mér daginn út og daginn inn – Getur verið að hann sé í alvöru hrifinn af mér? – Ætli hann fari ekki að hringja? Svo tók hjartað aukaslag í hver skipti sem síminn hringdi. Svo var útlitið á mér allt í einu alveg ómögulegt -Oh, af hverju er ég nú endilega að fá svona ljóta bólu núna? – Getur verið að ég sé kannski of feit? – Af hverju þarf nú hárið á mér að vera svona ljótt einmitt núna –Í hverju get ég eiginlega farið? Það er allt svo hallærislegt sem ég á. Ætli hann verði svo ekki frekar hrifinn af einhverei skólasystur í Versló því þær eru örugglega allar miklu sætari en ég?

Ég fæ bara í magann við að rifja þetta upp, en ég hugsa að flestar konur muni eftir svona vangaveltum frá unglingsárunum. Mikið var ég nú heppin að eiga mömmu sem ég gat ausið þessu öllu yfir og hún reyndi að róa mig niður eftir bestu getu. Já það er ótrúlegt hvað fyrsta alvöru ástin getur breytt miklu í lífi 16 ára unglings, eða réttara sagt nærri sextan ára.

Milli þess sem talast var við í síma vorum við að smá hittast, fórum kannski í bíó ef við áttum peninga til þess og svo þurftu auðvitað bæði að sinna vel náminu sínu, en ég var að klára Verknám og Oddur var í Versló. Pabba þótti orðið nóg um hvað ég fór oft til þess að hitta “þennan strák” (eins og pabbi kallaði hann til að byrja með) og hvað ég eyddi miklum tíma í að tala við hann í síma. Við pabbi höfðum ekki sömu skoðun á því að ég færi of oft út með “stráknum” á kvöldin, því með skólanum þá kenndi ég líka leðurvinnu á kvöldnámskeiðum hjá Æskulýðsráði. Á þessum tíma vildi hann pabbi minn bara ekki hlusta á rökin frá litlu stelpunni sinni. Áður var ég jú vönust því að sitja að mestu heima með foreldrum mínum með handavinnu eða föndur á kvöldin. Ég var mjög mikil pabbastelpa og fannst sjálfri ekkert hafa breyttst, en það var jú óneitanlega kominn annar herra sem hafði nú algjöran forgang og litla stúlkan hans pabba síns notaði allt í einu ekki eins mikinn tíma, eða hafði eins mikinn áhuga á að vera bara róleg heima á kvöldin.

Alltaf vakti pabbi eftir mér þegar ég fór í bíó og fylgdist með því hvort ég kæmi ekki örugglega beint heim með strætó eftir bíóferðir. Mér fannst þetta merki þess að hann treysti mér ekki og ég var svo ósátt við það, ekki síst vegna þess að ég hvorki reykti né smakkaði vín eins og mjög margir á mínum aldri voru farnir að gera og ég var líka mjög ábyrg og varkár að fara ekki of geist í ástamálunum.

———————-

Það kom svo að því seinna, að Odd langaði til þess að ég kæmi með honum heim til þess að hitta fjölskyldu hans, en hann var þá búinn að koma heim til mín og hitta mömmu, en hann elsku pabbi minn notaði strútsaðferðina og var allt í einu svo upptekin við að gera eitthvað frammi í herbergi að hann kom ekkert fram. Hann átti örugglega í miklu sálarstríði og gat ekki viðurkennt það fyrir sjálfum sér að litla dóttirin væri orðin alvarlega ástfangin. Hann afbar bara ekki tilhugsunina.

Ég kveið alveg rosalega fyrir því að hitta fjölskyldu Odds. – Hvað ætli þeim finnist um mig?

Ég fór með strætó niður í Hlíðar og þegar ég síðan stóð fyrir utan útidyrnar á Bólstaðarhlíð 7 var ég með dúndrandi hjartslátt og hnút í maganum og var að hugsa með mér hvort ég ætti kannski bara að læðast í burtu og koma heldur seinna. Ég ákvað að herða frekar upp hugann og hringja dyrabjöllunni. Ég var svo rétt búin að teygja mig í átt að bjöllunni þegar dyrnar opnuðust óvænt og brosandi kona stóð í gættinni og sagðist hafa séð að ég var að koma. Hún kynnti sig svo, Guðbjörg hét hún og var mamma Odds. Það þarf ekkert að orðlengja það, að þessar móttökur breyttu öllu og mér leið strax svo miklu betur.
Svo hitti ég hina í fjölskyldunni þegar ég kom inn í stofuna, Pétur hét pabbinn og systkinin voru Ingunn sem var 14 ára og næst Oddi í röðinni, en hann var stóri bróðir 17 ára. Svo voru það yngri bræðurnir Einar, sem var nýorðinn 12 ára og Loftur Þór sem var 5 ára. Svo bað Oddur mig að koma aðeins með sér og viti menn, í næsta herbergi var tágakarfa á hjólum og í henni lá ungbarn, lítil yndislega falleg stúlka. “Þetta er svo litla systir mín hún Linda Björg sem er fædd í júlí.” sagði Oddur hreikinn og litla stúlkan bræddi algjörlega hjarta mitt með fallegu augunum sínum. „Hvílíkt ríkidæmi að eiga svona mörg systkini“ sagði ég við Odd. “ Já þú segir það” sagði hann hugsi. “Jú auðvitað, en það er ekki alltaf svona rólegt hérna.”

Mér varð hugsað til þess hvað það hlyti að vera gaman að eiga svona mörg systkini. Ég átti tvær systur, önnur var sjö árum eldri en ég og hin 14 árum eldri svo að í uppvextinum höfðum við ekki mikinn félagsskap hvor af annarri. Þegar ég var sjö ára var elsta systir mín flutt að heiman og eignaðist á því ári sitt fyrsta barn og sú sem var sjö árum eldri en ég var komin á unglingsár og var ekkert hrifin að þurfa alltaf að hafa þennan litla krakka í eftirdragi – en hvað ég skildi það þegar ég var sjálf kominn á þann aldur. (Seinna, eftir að ég varð eldri, kom svo í ljós að aldur skiptir engu máli og þá var eins og við værum allar á sama aldrinum.)