Minningar Guðbjargar

Skrifað í maí 2014:

Það er bæði ljúft og erfitt að opna minningaskjóðuna til að skrifa um hann pabba minn. Ég er svo heppin að muna eftir mér frá því ég var aðeins nokkurra ára gömul og bjó með foreldrum mínum í Bretlandi. Þær minningar mínar hef ég alltaf haldið mikið uppá og þær hafa yljað mér um hjartarætur á erfiðum stundum. Pabbi minn var alla tíð í miklu uppáhaldi hjá mér, ég var mikil pabbastelpa. Eitt af því sem mér fannst skemmtilegt að gera um helgar í Bretlandi var að fara með mömmu og pabba að borða ,,brunch“ á sveitapöbbum sem staðsettir voru nálægt ám og fylgjast með bátunum sigla í gegnum skipalokurnar. Ég minnist líka margra ferðalaga um Bretland, bæði ein með foreldrum mínum og í hópi ættingja sem komnir voru til að heimsækja litlu fjölskylduna. Pabbi minn var alltaf hress og kátur, hann var mikill húmoristi og mér fannst gaman að vera með honum að þvælast. Pabbi hélt með Manchester United í enska boltanum og ég hélt með þeim sem pabbi hélt með.

Ég hafði beðið lengi eftir því að verða stóra systir og loksins rættist draumurinn þegar ég var sjö ára gömul og eignaðist litla systur, hana Sigurrós. Fjölskyldan var orðin fullkomnuð og við nýflutt í nýja fína húsið okkar þegar fyrsta áfallið dundi yfir. Ég man þann dag eins og hann hafi gerst í gær.

Það er eins gott að pabbi minn sé ekki að fara á brennur á gamlárskvöld nú á dögum því hann yrði örugglega settur í bann á slíkum samkomum vegna bóta á öryggisatriðum. Ég man mjög vel eftir því að fara á brennur með fjölskyldunni þegar ég var stelpa. Þá var pabbi í essinu sínu. Hann skellti flugeldum, blysum og stjörnuljósum í vasana á yfirhöfninni sinni og rölti með það þannig um á brennunni. Annað slagið tók hann upp flugeld og kvekti í honum með vindlinum sem hann var með í munninum á meðan á brennunni stóð. Í þá daga var ekki eins verið að spá í þessum öryggisreglum. Ég man að mér fannst þetta æði.

Áður en pabbi fékk fyrsta áfallið vorum við líka mikið í sumarbústað fjölskyldunnar, Sælukoti.  Pabbi og  Einar bróðir hans byggðu sumarbústað á ættarlandinu við Heiði á Rangárvöllum.  Það kom á óvart hvað pabbi var duglegur við smíðavinnuna í Sælukoti, því hann var ekki mikið fyrir verklegar framkvæmdir og sagðist vera með eintóma þumalfingur. Hann vildi því yfirleitt frekar fá iðnaðarmenn til þess að vinna fyrir sig, en vinna sjálfur þá vinnu sem hann kunni best sem endurskoðandi og var góður í skipulagi og peningaöflun.  Sælukot var bara svo mikið hugarfóstur að þar gegndi öðru máli og hann var mjög spenntur í öllum fríum að komast í Sælukot.

Ég hugsa að ég hafi aldrei orðið eins hrædd á lífi mínu og í eitt skipti þegar ég var sjálf komin með bílpróf og fékk það hlutverk að fara að sækja pabba á Reykjalund. Ég átti þá tveggjadyra Colt með stórum hurðum. Það skipti engum togum að á miðri leið frá Mosfellsbæ til Reykjavíkur (í mikilli umferð) datt pabba mínum í hug að opna farþegahurðina á bílnum. Einhvernvegin náði ég að keyra út í kant, án þess að pabbi ylti út úr bílnum, stöðva bílinn og teygja mig í hurðina til að loka henni. Pabba fannst þetta mjög sniðugt, en ég var góða stund að jafna mig svo ég gæti ekið heim. En þá var ég búin að halda góða ræðu og útskýra fyrir pabba að nú mundi ég læsa hurðinni og hann kæmi ekki við hana það sem eftir er ferðar. Ég held að hann hafi haft lúmskt gaman að þessu. Svona hluti gat pabba dottið í hug að framkvæma, eftir heilablóðföllin, þetta sýndi vel hvað hugsunin var sködduð.

Það er svo skrítið að það er stundum eins og ég hafi átt tvo pabba, fyrir og eftir pabba. En það var sama hvað pabbi minn var veikur og hversu skertur hann varð, hann var alltaf besti pabbinn. Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki enn um hann. Það var auðvitað margt sem breyttist við veikindi pabba, þó hann hafi náð sér ágætlega á strik eftir fyrsta áfallið og verið kominn í vinnu aftur.

Persónuleiki pabba breyttist vissulega eftir heilablóðföllin, en við systurnar og mamma vissum það að hann lifði fyrir að vera með fjölskyldunni og vildi helst vera með henni öllum stundum. Við systur vorum duglegar að segja pabba frá því sem við vorum að fást við og leyfa honum að fylgjast með því að við stæðum okkur vel í skólanum, því við vissum snemma að hann hefði alltaf verið mjög góður námsmaður. Pabbi missti sem betur fer aldrei húmorinn í veikindum sínum, það var hægt að gera að gamni sínu við hann og nýttum við það óspart að slá á létta strengi.

Kletturinn hans pabba var mamma. Mamma sá til þess að við systur fyndum ekki svo fyrir því að eiga ekki ,,heilbrigðan“ pabba, sá til þess að við upplifðum og gerðum það sama og önnur börn. Hún náði einhvernvegin að passa að við hefðum ekki of miklar áhyggjur og kenndi okkur að tala um tilfinningar okkar og ræða opinskátt um erfiðleikana, fyrir það er ég henni ævinlega þakklát. Það er mömmu að þakka að við systur komumst án teljandi erfið leika í gegnum þessa reynslu. Við lærðum að láta erfiðleikana styrkja okkur, það sem ekki drepur mann, styrkir mann. Það má bogna og brotna, en svo tínir maður upp brotin og heldur áfram. Þetta varð okkur gott veganesti til að takast á við aðra erfiðleika í lífinu.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég ákvað að ef ég myndi eignast son á lífsleiðinni, yrði hann skírður Oddur Vilberg. Ég hugsa að ég hafi ekki verið meira en svona 8-9 ára þegar ég ákvað þetta með sjálfri mér. Það var því hátíðleg stund fyrir mig þegar eldri sonurinn var skírður í húsinu sem pabbi lét byggja fyrir okkur fjölskylduna og það var líka góður vinur mömmu og pabba sem sá um skírnina. Því miður náði hann pabbi minn aldrei að hitta barnabörnin sín, en nafni hans erfði prakkaraskapinn og húmorinn hans afa síns og heldur merki hans vel á lofti.

Það er svo margt sem maður vill skrifa í svona minningu, en það eru ákveðnir hlutir sem leita upp í hugann og erfitt að stjórna því hvað birtist.

Elsku pabbi minn, til hamingju með 70 ára afmælið þitt, ég veit að þú ert okkur nálægur nú sem endranær.

Þín ævinlega,
Guðbjörg Oddsdóttir