Minningargrein – Helga Mattína

Skólabjallan hringir – fyrsti dagurinn í skóla er runninn upp. Stór stund. Hópur barna stendur í anddyrinu og horfir spurnaraugum inn í endalausan skólaganginn með ótal
hurðum á báða vegu. Hurðum sem brátt opna börnunum ungu nýjan og spennandi heim, það er sól úti og sól inni. Er lífið okkar ekki, ef til vill, svolítið eins og skólagangurinn forðum? Hurðirnar tækifærin sem bíða okkar, örlögin sem spinna lífsvefinn búa innan þeirra. Enginn veit sína ævina… er setning sem á betur og betur við, eftir því sem árunum í lífi okkar fjölgar.

Allt þetta kemur upp í hugann þegar síminn hringir og mér er tjáð að Oddur Pétursson, minn gamli bekkjarbróðir úr barnaskóla, sé farinn í ferðina miklu.
Í huga mínum er mikil birta, sólskin bernskudaganna er skærara en nokkurt sólskin dagsins í dag. Mynd 10 ára bekkjar A í Langholtsskóla skín skærast. Það var gaman að vera í þessum skemmtilega bekk, meðal fjörugra skólasystkina og með frábæra kennara sem uppfræðara. Langvinsælasti strákurinn í bekknum okkar var Oddur. Við stelpurnar sáum stjörnur þegar
hann birtist. Við vorum allar bálskotnar í honum. Hvernig var annað hægt? Hann var með sitt fallega breiða bros og rauðar eplakinnar. Bjartur og blíður, duglegur í námi og ljúfur í leikjum, kátur og góður félagi. Eftir skóla á daginn hittumst við krakkarnir oft til að leika
okkur á túnunum fyrir neðan Langholtsveginn eða þá til að fela okkur í skurðunum við Holtaveginn. Já, leikir og gleði einkenndu þennan tíma.

Tíminn í Langholtsskóla var tími birtu og vaxtar og flaug hratt. Unglingsárin tóku við og bæði völdum við Verslunarskólann sem okkar framhaldsskóla. Oddur var sem fyrr ljúfur og góður félagi. Námsmaður í betra lagi með tölur sem áhugasvið. Og aftur kemur upp í hugann
setningin, Enginn veit sína ævina…

Ungur að árum varð Oddur fyrir alvarlegum höfuðveikindum sem slógu þennan góða dreng þungum höggum, oftar en einu sinni. Líf hans gjörbreyttist. Ungi maðurinn í góðu starfi hjá eigin fyrirtæki með sína góðu eiginkonu, Rögnu sér við hlið og tvær yndislegar dætur, þurfti nú að endurmeta stöðu sína og sinna. Ég hitti hann stutta stund, á förnum vegi, á þessum tíma og enn brosti Oddur sínu fallega brosi og augun endurspegluðu trú á lífið og trú á bata.

Þegar þessi hurð á lífsganginum opnaði Oddi heim veikinda og baráttunnar við þau, stóð hann aldeilis ekki einn. Ragna kona hans og stúlkurnar þeirra tvær stóðu með honum. Sterkar og bjartar veittu þær honum gleði og ást – alltaf – til hinstu stundar.
Ég trúi að hurðin sem síðust opnaðist mínum kæra bekkjarfélaga úr Langholtsskóla, Oddi Pét
urssyni, sé hurð að eilífri hamingjusól og nýjum vexti sem ekkert fær stöðvað.

Helga Mattína — Grímsey.