Minningargrein – Ingunn Péturssdóttir Sim

Ég sit hér í bátnum mínum niðri við sjó við strönd Ameríku og rifja upp gamlar og góðar minningar frá liðnum stundum sem ég átti með honum Oddi mínum og trega að geta ekki fylgt honum hinsta spölinn. Þegar ég hugsa um Odd er mér efst í huga hversu ábyggilegur hann alltaf var og góður og hve honum leið illa ef einhver átti bágt.

Bóklestur var honum hugleikinn, hvort sem það voru Íslendingasögurnar eða Andrés Önd, það skipti ekki máli.

Hann var ekki gamall þegar hann fór að fara í sveitina til afa og ömmu á Heiði, strax og skólinn var búinn á vorin. Hann mátti ekkert vera að því að bíða eftir einkunnum sínum, svo ég fékk þann heiður að sækja þær fyrir hann og viðurkenningarnar. Hann var alltaf í hópi hinna hæstu yfir skólann, oftast hæstur, svo það voru ekki erfið spor að stíga að gera þetta fyrir hann. Ekki minnist ég þess að hann hafi oft reiðst, en ég man þó þegar við vorum krakkar að hann varð mikið reiður þegar hann var kallaður: Oddur á Skaganum, með rauða kúlu á maganum. Hann var heldur ekkert hrifinn af því þegar við Kitta fylgdumst með í gegnum skráargatið þegar hann var að æfa sig í að dansa inni í stofu á Langholtsveginum.

Ég á margar frábærar minningar frá útilegunum sem ég fékk að fara með þeim Oddi og Rögnu og vinum þeirra um allt land. Alltaf fékk ég að sofa í tjaldinu hjá Oddi og Rögnu, þó ekki hafi staðið á því að ég mætti sofa í tjaldinu hjá Kristni og Viktori. Stóri bróðir var alltaf að líta eftir systur sinni. Ég man líka vel hve Oddur hló mikið að mér eitt sinn er þau höfðu boðið mér í mat til sín í Kópavoginn þar sem þau bjuggu á annarri hæð í húsi einu. Þegar ég opnaði útidyrnar kom þessi líka fýlan á móti mér, að lá við að ég sneri við. Sem betur fer gerði ég það nú ekki, því fýlan ógurlega kom frá neðri hæðinni þar sem verið var að sjóða skötu.

Margt, margt fleira kemur upp í hugann, en hér læt ég staðar numið.

Hugur minn er hjá ykkur heima á Fróni á þessari erfiðu stundu.

Ég bið Guð að taka vel á móti Oddi mínum.

Ingunn Pétursdóttir Sim,
Tacoma.